Skipulagsskrá
fyrir Tónlistarsjóð Hörpu fyrir ungt fólk.
1. gr.
Nafn sjóðsins er Tónlistarsjóður Hörpu fyrir ungt fólk. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík. Tilgangur sjóðsins er að styðja ungt og efnilegt tónlistarfólk fjárhagslega og veita því tækifæri til að koma fram í tónlistarhúsinu.
2. gr.
Sjóðurinn er stofnaður í desember 2010 af Spron – sjóðnum ses., kt. 600807-1610.
3. gr.
Við staðfestingu skipulagsskrár þessarar leggur stofnandi fram 80.000.000 krónur, sem er stofnfé sjóðsins.
4. gr.
Tekjur sjóðsins eru vextir og aðrar fjármagnstekjur af stofnfé og eftir atvikum aðrar tekjur eða framlög sem honum kunna að berast.
5. gr.
Stjórn sjóðsins á hverjum tíma er ábyrg fyrir varðveislu og ávöxtun fjármuna hans, en féð skal ávallt varðveitt með sem tryggustum hætti.
6. gr.
Stjórn sjóðsins skipa 3 einstaklingar. Stjórn Rekstrarfélags Hörpunnar, Ago ehf., stjórn Listaháskóla Íslands og stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands tilnefna einn fulltrúa hver. Stjórnin skiptir með sér verkum og kýs sér formann og varaformann, en þriðji stjórnarmaðurinn er ritari stjórnar. Verði sæti autt í stjórninni vegna úrsagnar eða þess að einhverjum er ókleift að sinna stjórnarstörfum skal leitað til þess aðila sem tilnefnt hafði viðkomandi til stjórnarsetu og þess óskað að hann tilnefni nýjan mann í stjórnina. Fáist ekki tilnefning í stjórnina með þessum hætti skulu hinir aðilarnir sem tilnefndu stjórnarmann ákveða hver taki hið auða sæti í stjórninni.
7. gr.
Stjórn sjóðsins skal setja sjóðnum úthlutunarreglur í samræmi við tilgang sjóðsins og skulu þær vera öllum aðgengilegar. Þar skal koma fram hver hámarksstyrkur skuli vera fyrir hvern styrkþega á ári, en sú fjárhæð skal síðan taka breytingum í samræmi við verðlagsbreytingar. Í úthlutunarreglum skulu koma fram reglur um umsóknir og meðferð þeirra, svo og um úthlutun fjármuna úr sjóðnum. Úthlutun styrkja úr sjóðnum skal fara fram eigi sjaldnar en einu sinni á ári, en stjórn getur við sérstakar aðstæður ákveðið að úthluta oftar.
8. gr.
Reikningsár sjóðsins er almanaksárið og er fyrsta reikningstímabil frá stofnun sjálfseignarstofnunarinnar og til næstu áramóta. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda, sem stjórnin velur, og skal endurskoðun lokið eigi síðar en 31. mars ár hvert fyrir næstliðið ár.
9. gr.
Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Sauðárkróki á skipulagsskrá þessari í samræmi við ákvæði laga nr. 19/1988 og tekur hún gildi við staðfestinguna. Eftir það verður skipulagsskrá þessari ekki breytt nema með samhljóða ákvörðun sjóðstjórnar. Verði sjóðurinn lagður niður eða skipu-Nr. 598 3. júní 2011 lagsskráin felld úr gildi með öðrum hætti skulu eignir hans renna til tónlistarskóla fyrir unga nemendur. Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.
Sýslumaðurinn á Sauðárkróki, 3. júní 2011.